Laun í vinnslu
Í þessari valmynd fer launaútreikningurinn sjálfur fram. Vinnulagið við að reikna laun er þannig að fyrst er stofnuð útborgun, næst er útborgunin reiknuð og að síðustu er síðan útborgunin bókuð í fjárhag. Hægt er að skoða einstaka launaseðla áður en bókað er, breyta seðlunum með beinni skráningu eða skrá breytingar í skráningarbækur eða á starfaspjöld og endurreikna síðan útborgunina eða staka launaseðla. Ef breytingar eru gerðar á starfaspjaldi launþega sem á launaseðil í útreikningi kemur athugasemd á launaseðil og lína hans verður rauð í töflu.
Stofna og reikna launaseðla:
Aðgerðin felur í sér að kerfið stofnar launaseðla fyrir alla launþega sem eiga opnar launafærslur og útborgunartegund sem passar við valda útborgun. Ef bókun fastabóka er sjálfvirk stofnar kerfið seðla á alla launþega sem eiga slíkar færslur í föstum bókum. Jafnframt eru seðlarnir reiknaðir út miðað við þær forsendur og forsendur á starfaspjaldi. Flýtilykill á aðgerðina er F9, Ctrl-F9 til að endureikna stakan seðil og Shift-Ctrl-F9 til að endurreikna alla seðla.