Tollskýrslan
Hér verður farið í alla reiti tollskýrslunnar og þeir útskýrðir. Margir reitanna innihalda gildi sem eru sjálfgefin eða sett upp í stofngögnum en aðrir innihalda mikilvægar upplýsingar til útreiknings gjalda og eru færðar inn í hverja skýrslu fyrir sig skv. viðeigandi gögnum.
(1) Skýrsla
1.hluti – hverskonar tollafgreiðsla; vara frá löndum með upprunarétt í EFTA, ESB eða EES eru skráð EU en vörur frá öðrum löndum (þriðja lands innflutningur) fá IM.
2.hluti – hér er skráð hvort um er að ræða almennan innflutning, hraðsendingar, bráðabirgðainnflutning o.s.frv. Áður var notað ET fyrir rafræna afgreiðslu en í nýrri skýrslu verður notast við AL (þýðir almenn afgreiðsla og er sett upp í tollkerfisgrunni sem sjálfgefin lýsing) í SAD.Bráðabirgðaafgreiðslur halda sama lykli og áður og sendast rafrænt út úr SAD kerfinu. Við bætast lyklar fyrir innsetningu og úttektir úr tollvörugeymslu, frísvæði, tollfrjálsa verslun og forðageymslur.
3.hluti – hér er skráð númer afgreiðslu, 01 fyrir þá fyrstu og svo 02 fyrir leiðréttingu eða afgreiðslu 2 o.s.frv.
(2) Erlendur seljandi
Hér er hægt að sækja upplýsingar um erlendan seljanda úr viðskiptamannagrunni ef hann er þekktur ásamt EORI númeri ef það er fyrir hendi. Ef um fleiri en einn erlendan seljanda er að ræða á að fylla út lista með nöfnum, heimilisföngum og öðrum viðeigandi upplýsingum og skrá í reitinn Sjá meðfylgjandi lista. Heiti erlends seljanda breytist við þetta í Safnsending.
(3) Eyðublöð
Fjöldi tollskrárnúmera. Þennan reit þarf ekki að fylla út en ef fleiri en eitt tollskrárnúmer eru skráð í skjalið teljast viðbótarsíðurnar sjálfkrafa t.d. ef um er að ræða 5 tollskrárnúmer verða síðurnar þrjár þ.e. forsíða og tvær viðbótarsíður.
(5) Vöruliðir
Hér er fjöldi tollskrárnúmera í skýrslunni. Ath. sama númer getur talist oftar en einu sinni ef mismunandi skilmálar eru á því t.d. fleiri en eitt land o.þ.h.
(6) Stykkjatala
Hér er skráður fjöldi eininga eins og kemur fram á farmbréfi.
(7) Tilvísunarnúmer
Númer tollskjals fyrir auðveldari leit að gögnum, sett upp í númeraröð í BC (reitur 4 í E-1).
(8) Viðtakandi
Nafn, heimilisfang, VSK nr., netfang og símanúmer innflytjanda/eiganda vörunnar.
(9) Ábyrgðaraðili greiðslu
Þessi reitur er eingöngu fyrir tollmiðlara. Hér getur miðlarinn óskað eftir að gjöld verði skuldfærð á annaðhvort innflytjanda eða miðlarann sjálfan. Samsvarar GI lykli í fyrri útgáfu.
(10) Ekki notaður
(11) Viðskiptaland
Lykill viðskiptalands vöru þar sem reikningur er gefinn út, sjálfgefinn og sóttur af lánardrottnaspjaldi í BC (reitur 8 í E-1).
(12) Verðmætisupplýsingar
Hér er færður inn tollskyldur kostnaður s.s. flutningsgjald, vátrygging og annar kostnaður sem reiknast inn í tollverð (reitir 24, 25 og 26 í E-1) ýmist af flutningstilkynningu eða úr vörureikningi.
(13) Heildar brúttóþyngd sendingar
Heildarþyngd sendingar sbr. farmbréf/flutningstilkynning (reitur 22 í E-1).
(14) Skýrslugjafi/umboðsaðili
Nafn, kennitala, símanúmer, heimilisfang og VSK nr. tollmiðlara eða rekstraraðila frísvæðis eða tollvörugeymslu nema skýrslan sé gerð af innflytjanda (eiganda vöru) þá er reiturinn tómur.
(15) Lykill sendingarlands/útflutningslands
Fremri hluti auður en í a hluta er sett inn sendingarland t.d. ef vara er greidd í einu landi en send frá öðru. Ekki er átt við umskipunarhöfn.
(16) Ekki notaður
(17) Ekki notaður
(18) Auðkenni og þjóðerni flutningsfars við komu
Sendingarnúmer farmflytjanda (reitur 8 í E-1). Farmskrá er skrá yfir allar vörur í flutningsfari, (skip,flug o.s.frv.) þar koma fram vörulýsing, magn, þyngd, viðtakandi, ákvörðunarstaður og fl.
Dæmi um sendingarnúmer í skipasendingu: EBRU30041GBIMMW004
E- farmflytjandi í þessu tilfelli Eimskip
BRU- tákn flutningsfars (Brúarfoss)
30 04 1 - Komudagur, mánuður og ár
GB IMM - Hleðsluland og staður
W004- Farmskrárnúmer (í sjósendingum)
Dæmi um sendingarnúmer í flugsendingu: F43129051GBGLA5272
F- Farmflytjandi í þessu tilfelli Icelandair
431- Tákn flutningsfars (flugnúmer)
29 05 1 - Komudagur, mánuður og ár
GB GLA Hleðsluland og staður
5272- Númer útbúið af farmflytjanda (ekki farmskrárnúmer)
(19) Gámur
Upplýsingar eingöngu fyrir sjósendingar. Hér á að setja 0 fyrir lausavöru og 1 fyrir vörur fluttar í gámi.
(20) Afhendingarskilmálar
Incoterms t.d. EXW, FOB, CFR o.s.frv. í fyrsta hluta, í miðhluta skráist hvert eða hvaðan skilmálarnir gilda. Aftasti hluti er ekki fylltur út (reitur 19 í E-1). Lista yfir afhendingaskilmála má finna á vefsíðu skattsins Afhendingarskilmálar | Skatturinn - skattar og gjöld
(21) Auðkenni og þjóðerni virks flutningsfars við flutning yfir landamæri
Þessi reitur er fyrir farmskrárnúmer (reitur 11 í E-1).
(22) Mynt og heildarfjárhæð reiknings
Í fyrri hluta reitsins er settur kóti myntar t.d. DKK, EUR o.s.frv. FOB verð sendingar án aukakostnaðar sem gæti verið á reikningi er færður í seinni hluta reitsins (reitur 22 í E-1).
(23) Gengi
Ekki nauðsynlegt að fylla þennan reit út þar sem gengi er sótt í kerfið af vef Seðlabanka Íslands (reitur 18 í E-1).
(24) Tegund viðskipta
Hér eru veittar upplýsingar um tegund viðskipta t.d. innflutningur, endursending eða annað skv. viðeigandi lyklum 0-5, sett upp í tollkerfisgrunni.
(25) Flutningsmáti yfir landamæri
Í fremri hluta er upplýst um flutningsfar, hvort varan kom með skipi, í flugi, pósti o.s.frv. skv. lyklum frá tollstjóra.
(26) Ekki notaður
(27) Ekki notaður
(28) Fjármála- og bankaupplýsingar
Eingöngu notaður við innsetningu vörusendingar í tollvörugeymslu, tollfrjálsa verslun eða tollfrjálsa forðageymslu.
(29) Ekki notaður
(30) Geymslustaður vöru
Vörugeymsla ótolllafgreiddrar vöru skv. lykli sem Tollstjóri hefur úthlutað farmflytjanda (reitur 13 í E-1).
Reitir 31-47 samsvara reitum 28-27 í E-1 en með öðru sniði.Upplýsingar í þessa reiti eru fengnar úr línum tollskýrslunnar og tengjast hverju tollskrárnúmeri fyrir sig. Farið verður yfir línur tollskýrslu síðar í handbókinni. Hér eru meiri upplýsingar en í E-1.
EDI samskipti
EDI kerfið sér um rafrænar skeytasendingar milli Tollkerfis Wise og Tollkerfis hjá Skattinum.
Innflytjandinn þarf að sækja um leyfi til rafrænnar tollafgreiðslu hjá Skattinum. Innflytjandinn fær sér X400 gagnahólf þar sem EDI skeytin eru geymd. EDI þýðandi tekur á móti EDI skeytum úr NAV í sérstakri möppu (EDI – Tollskjal út) og þýðir þau svo þau séu læsileg í Tollkerfinu hjá Skattinum. Á sama máta, tekur EDI þýðandi á móti EDI svarskeytum frá skattinum og þýðir þau svo þau séu læsileg í NAV og færir þau í sérstaka möppu (EDI – Tollskjal inn).